Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Lífið í Würzburg…..

Untirritaðri hafa borist nokkrar kvartanir vegna bloggleysis og kemur því nú eitt stykki blogg!

Eitt og annað hefur drifið á daga mína síðasta mánuðinn. Lífið hér í Würzburg er einfaldlega of skemmtilegt og spennandi til þess að ég gefi mér tíma til þess að blogga. En hvað gerir maður ekki fyrir klakafólkið 😉

Þann 12.febrúar héldum við örlítið innflutningspartý í nýju íbúðinni okkar og buðum þýsku vinum mínum upp á brennivín og nóakropp. Íslensk tónlist, íslenskt brennivín og íslenskt súkkulaði spilaði þar því stórt hlutverk og við hlutum lof fyrir 🙂

Um miðjan febrúar fékk ég svo fyrstu heimsóknina þegar Abba skvísa heimsótti mig í nokkra daga. Sá tími var að sjálfsögðu alltof fljótur að líða enda skemmtum við okkur vel og skipulega 😉 Abba fékk túristatúr um borgina, sushi kvöldverð, þjóðverja hitting og nammi-viedokvöld ásamt fleiri fínheitum!

Í Þýskalandi stendur nú yfir Fasching og hér er gleðin við völd! Grímuklætt fólk er orðið daglegt brauð og Krapfen freistingar á hverju horni! Krapfen er það sama og Berlínar-bollur sem eru eiginlega bolludagsbollur þjóðverjanna, nema þeir borða þetta yfir alla Fasching hátíðina! Krapfen með súkkulaði, nutella, vanillubúðing, sultu, eplamauki og fleira…ekki slæmt 😉

Hápunktur hátíðarinnar var í gær þegar Fasching-lestin „keyrði“ um bæinn. Allir – og þá meina ég ALLIR – ungir sem aldnir klæddust grímubúning og biðu spenntir eftir að grípa eins mikið af sælgæti og þeir gátu borið. Öllu var skartað í skrúðgöngunni og hvert atriði kastaði sælgæti og fleiru til áhorfendanna, sem biðu spenntir með innkaupapokana sína. Í bænum ríkti gríðarleg þjóðhátíðarstemming og allir sveifluðu höndum og öskruðu „Heyjaaao, Heyjaaao“, en nánari útskýrningu á því á ég eftir að verða mér út um. Þetta var yndislegt – maður var eins og lítill krakki í nammilandi 🙂

Og síðast en ekki síst, tókst okkur Helgu að baka bollur í dag! Þetta var frumraun okkar í bollubakstri og tókst svona líka ljómandi vel og bollurnar smakkast alveg jafn vel og mömmubollur.  Við erum því nýkrýndar bollur 😀

Smjatt smjatt….gleðilegan bolludag 🙂

-Kristrún smjattpatti!

Myndablogg

Ég lofaði víst fyrir all nokkru síðan að henda hérna inn myndum við tækifæri. Í millitíðinni hefur aðeins of mikið verið í gangi til þess að ég finni tíma til þess 😉 Þar má helst nefna flutninga niðrí miðbæ, bíóferð, hálfþveginn þvott, ægilega lærdómstörn fyrir B1 þýskupróf, gönguferðir upp að kastala og hoppandi káta grenjandi söngtíma! 🙂

En hér kemur eitt stykki myndablogg!

Ég var búin að lofa myndum af flóðinu í ánni Main og til þess að auðvelda mér málið þá er hér linkur inn á frábærar myndir af flóðunum: http://www.flickr.com/photos/mattrkeyworth/5349279263/in/photostream/

Þá eru það myndir af íbúðinni:

Þessar myndir voru teknar í flýti fyrir æsta aðdáendur. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar og Helga flutt yfir í annað herbergi.

Þetta er stofan/herbergið mitt.

Bæði rúmin voru í stofunni.

Hér er gengið fram á ganginn.

Eldhúsið. Hér er mikið eldað !!

Hitt herbergið.

Gangurinn, tekið frá baðherbergi.

Þetta er flennistór íbúð og ekki laust við að maður fái víðáttubrjálæði eftir kósí litlu kjallarholuna í Höchberg 🙂

Þetta er útsýnið út um stofugluggann. Fyrir þá sem þekkja til þá grillir í Die alte Mainbrücke þarna bakvið trén 😉

Ooooog meira mont!

Okkur Helgu tókst að setja í þvottavél og fá fötin nánast þurr út aftur!

Og að lokum fær fyrsta „vor“myndin að fylgja með. Tekin í vorveðrinu sem við fengum í síðustu viku, 15 stiga hita og sól 🙂

Næstu dagar eru svo orðnir pakkaðir af skemmtilegheitum! Helga fær þýsku nöfnu sína í heimsókn, innflutningsdjamm með þjóðverjunum og brennivíni, Abba kemur í heimsókn á mánudaginn og svo er bara svo gaman að syyyyyyngja! 🙂

Ég kveð í bili!

-Kristrún

 

Fyrsta blogg eftir jól…

Eru jólin búin? Kom ég eitthvað heim? Hvert fór janúar?

Þetta eru helstu íhugunarefni hugans þessa dagana. Ég er mætt til ævintýraborgarinnar Würzburgar aftur eftir yndislegat jólafrí með fjölskyldu og vinum á Íslandi og finnst einhvern veginn eins og ég hafi ekkert farið heim 😉 Á það ekki líka bara að vera þannig?

Ég er þó ekki ein á ferð í þetta skiptið heldur er ég svo heppin að hafa hana Helgu Guðrúnu með mér og njóta hennar félagsskaps í nokkra mánuði! Ég efast ekki um að þessi tími eigi eftir að vera yndislegur og við vonumst að sjálfsögðu til þess að fá fullt af heimsóknum! 😉

Fyrsta vikan var góð! Helga Guðrún byrjaði í þýskuskólanum og líkar vel. Ég er nú þegar búin að fara í 3 söngtíma og allt að komast í gang aftur. Þýskuskólinn minn er ennþá í fríi en ég fer í próf um miðjan febrúar og byrja svo vonandi aftur í tímum í lok febrúar. Ég nýti þess vegna tímann minn þessa dagana í að vera veik, syngja eins og ég fái borgað fyrir það og glugga af og til í þýskubækur 🙂

Borgin tók vel á móti okkur og íbúðin litla var á sínum stað. Að vísu voru flóð í ánni Main fyrstu dagana þar sem heilu göturnar og hálfu húsin fóru undir vatn en það er allt komið í samt lag aftur. Íbúar Würzburgar virtust ekki kippa sér mikið upp við þetta en þeir voru nokkrir túristarnir sem tóku upp myndavélina sína, þar á meðal við! Ég lofa því myndum í næsta bloggi 🙂

Á mánudaginn er svo loksins komið að þeirri stóru stund að flytja niðrí miðbæ! Við gætum ekki verið heppnari með staðsetningu og erum orðnar ansi spenntar fyrir flutningunum 🙂

En nú er bókasafnið að loka og kominn tími á að elda sér eitthvað gott í gogginn. Hver veit nema ég verði bara komin með nettengingu HEIM TIL MÍN næst þegar ég set inn færslu! 😉

Liebe Grüße

Kristrún

Kristrún labbaði ekki á jólatré. Hún labbaði bara um alla Würzburg í leit að jólagjöfum á meðan jólasveina trúbadorinn spilaði og söng og snjónum kyngdi niður! Jólalegt eða hvað? 🙂 Og ekki skemmir fyrir að nú styttist óðum í heimkomu. Í tilefni þess hef ég ákveðið að sýna ykkur nokkrar myndir af snjónum sem ég ætla að koma með heim með mér 😉

Garðurinn minn.

Gatan mín 🙂 (efri mynd)

Nú ætla ég að taka mér smá jólafrí frá bloggheiminum!

Hlakka til að SJÁ ykkur 🙂

-Kristrún

(Ath. Þetta blogg er samið á sunnudagskvöldi en póstað á mánudegi!).

Það hlaut að koma að því. Í síðustu viku fannst mér alltof langt þangað til ég færi heim! Nú sit ég heima og pirra mig yfir því að allt sé lokað á sunnudögum því ég á eftir að gera svo agalega margt áður en ég fer heim og það eru bara 12 dagar þangað til !! 😀

Þessi vika var stútfull af þýskutímum, söngtímum, leiðinda erindum, strætóferðum, jólaglöggi, jólamarkaði og verslunarferðum! Það er seint hægt að segja að mér leiðist hérna í Würzburg. Stranga Þýskaland sér svo sannarlega um að halda mér við efnið og þess á milli reyni ég að syngja og næla mér í smá félagsskap 🙂

Ég jólaskreytti pínulítið hjá mér í dag og nú sit ég undir teppi við kertaljós og hlusta á jólalög. Í tilefni þess tel ég við hæfi að enda þessa bloggfærslu á nokkrum jólamyndum.

Jólamarkaðurinn mættur á svæðið.

Jólasyrpa.

Aðeins búið að skreyta borgina 🙂

Jólalestin: Ég er ekki búin að prufa það sjálf. En mér sýnist þetta vera pínulítið kaffihús þar sem sjálfur Jólasveinninn þjónar þér til borðs!

Fyrsti snjórinn 🙂

Ristastóra jólatréð sem óx upp úr gangstéttinni á einni nóttu.

Og enn bætist á jólaskrautið og snjóinn. Helga mín, ég lofa að reyna að taka betri myndir af snjónum í vikunni 😉

Gleðilega Aðventu!

-Kristrún.

Ég klikkaði víst á því að segja frá aðdraganda strætóferðarinnar ógurlegu. Þessi dagur hafði nefnilega ekki farið af stað alveg eðlilega, eða allavegana ekki eins og vanalega. Sjáið til, þegar vanalegu morgunrútínunni minni var lokið og ég tilbúin til þess að leggja af stað í skólann, opnaði ég útidyrahurðina og á móti mér tók………………………………..BRODDGÖLTUR !! Sem hafði ákveðið að dyramottan mín væri góður staður til þess að búa á. Hann skipti þó fljótt um skoðun þegar ég opnaði hurðina og hljóp beinustu leið út í heim. Viðeigandi öskur mín gætu hafa haft þar áhrif. Ég vona að það hafi ekki líka liðið yfir hann seinna um daginn.

Kannski var strætóferðin ógurlega bara afleiðing kynna minna við broddgöltinn ógurlega…. 😉 Í þetta sinn var það allavegana ekki sætur strákur, en takk fyrir hugmyndina. Hún er ekki svo slæm! 😀

Á fimmtudaginn kíkti ég aðeins á mannlífið í miðbænum með þýsku stelpunni sem ég kynntist á hostelinu, stelpunni sem leigir með henni núna og nokkrum vinum hennar. Með öðrum orðum: ég og 5 þjóðverjar á frekar háværum bar…. og ég skildi ekki orð !! Leiðrétting, ég skildi mest allt ef einhver einn var að tala beint við mig en þegar þau voru öll í heitum samræðum sín a milli – HÆGIÐ Á YKKUR FÓLK!! (sagði ég ekki, heldur sat eins og hálfviti og reyndi að grípa eitt og eitt orð).

En það var samt agalega gaman! 🙂 Góð tilbreyting frá því að sitja alein heima á kvöldin, horfa á þýskt sjónvarpsefni og gera þýskuverkefni. Bara það að hafa möguleika á félagsskap heldur í mér lífinu – þó svo að ég skilji ekki orð af því sem félagsskapurinn segir – en það kemur með tímanum! 😉 Næst á dagsskrá er grillpartý á svölum um miðjan vetur. Ég hlakka til!

Jólamarkaðurinn opnaði í gærkvöldi og kveikt var formlega á jólaljósum borgarinnar. Í tilefni þess voru búðirnar niðrí bæ opnar til klukkan 22. Ég hélt mig þó heima undir teppi eftir langan og þreyttan dag.

Og nú iðar borgin af lífi, stútfull af snjó, fólki og jólaskrauti. Ég ætla að fara að rölta um jólamarkaðinn og  næla mér í smá jólaskap! 🙂

Adios Amigos!

-Kristrún

p.s. Berglind, værirðu nokkuð til í að segja henni Helgu hvernig þér fannst kristallinn (bjórinn sem við smökkuðum á hótelbarnum) 😉

 

Ég vissi að enginn myndi nenna að lesa þessa bloggfærslu til enda!

Nú er komið að því skemmtilega. Um síðustu helgi hitti ég stóru systur og hennar eiginmann í Heidelberg. Þau voru þar í árshátíðarferð með vinnunni hennar Berglindar og svo heppilega vildi til að það tekur mig aðeins rúma 2 tíma að taka lest þangað 🙂 Við áttum saman frábæran sólarhring sem samanstóð aðallega af verslunarferðum, bjórprófun, indverskum kvöldverði og hótel-leynimakki! 😉 Hinn fullkomni sólarhringur sem var auðvitað alltof fljótur að líða!

Síðustu vikuna hefur svo jólaskrautið smám saman tekið völdin hérna í Würzburg! Búðirnar eru orðnar yfirfullar af jólavörum, borgarstarfsmenn iðandi um alla borg að hengja upp greni og jólaseríur (sem er þó ekki búið að kveikja á ennþá) og RISASTÓR jólatré vaxa upp úr gangstéttum á einni nóttu! Á föstudaginn opnar svo Jólamarkaðurinn á torginu niðrí miðbæ. Ég hlakka mikið til þess – það er víst stórkostlegt! 🙂

Jólabarninu finnst þessi jólaundirbúningur sko ekki leiðinlegur og ekki róuðust fiðrildin í maganum þegar ég pantaði flug heim um jólin í gær! Ég kem heim 17.desember – og það eru bara 25 dagar þangað til !!

Og já svona í lokin, ykkur til skemmtunar, þá tókst mér að láta líða yfir mig í strætó í morgun……..nei ég er ekki að djóka !!!!

Ást og friður 😉

-Kristrún

Afsakið….

…..bloggleysið! Hér kemur bloggfærslan ógurlega.

Síðustu vikur hafa verið svolítið einkennilegar. Ég hef verið á haus við að reyna að koma lífi mínu í fastar skorður hérna í útlandinu! Auk þess sem að þýskuskólinn og söngurinn taka sinn tíma (kaldhæðni já!). Ég verð víst að standa við orð mín og útskýra þetta nánar. Gallinn er sá að þessi bloggfærsla verður þá hrútleiðinleg! Tökum eitt punktablogg á þetta bara:

Þetta vesen síðustu vikur gekk allt út á það að mig langar að fá net heim til mín. Ætti ekki að vera svo flókið ha?  – ÞAÐ ER ÞAÐ !!

Í fyrstu heimsókn í símabúðir fékk ég þær upplýsingar að til þess að fá netpung í Þýskalandi þarf að hafa:

  • Bankareikning
  • Vegabréf (ef þú ert útlendingur),
  • Heimilsfang

(ATH að þessi heimsókn átti sér stað þegar mamma var ennþá hjá mér):

Við mæðgur fórum beinustu leið í bankann. Á þessum tíma var ég ekki flutt í íbúðina mína og var þess vegna ekki með fast heimilsfang. Bankareikningurinn var þó stofnaður fyrir mig án vandræða en beðið með að virkja hann þangað til ég væri komin í íbúðina. Þegar svo að því kom, beið ég spennt eftir öllum bréfunum sem ég átti að fá frá bankanum áður en ég gæti byrjað að nota reikninginn (=fá net). 5 bréf bárust með póstinum. Öll sitthvorn daginn af öryggisástæðum:

  • Leyninúmer fyrir netbankann.
  • Leyninúmer fyrir símabankann.
  • Korið sjálft.
  • Leyninúmer fyrir kortið.
  • Auðkennisnúmer fyrir netbankann (öðruvísi kerfi hérna – enginn lykill!).

Sá dagur rann upp sem síðasta bréfið kom og mín skundaði beinustu leið í símabúðina í heimsókn númer 2, agalega spennt eftir langa bið og ánægð með að vera komin með allt sem þarf til þess að fá net. Í þetta sinn fékk ég þær upplýsingar að til þess að fá netpung í Þýskalandi þarf að hafa:

  • Bankareikning – tékk
  • Vegabréf – tékk
  • Heimilsfang OG SKJAL FRÁ RÁÐHÚSINU UM AÐ ÞÚ BÚIR Í BORGINNI. – ekki tékk!!

Þessi heimsókn átti sér stað á laugardegi sem þýddi það að ég neyddist til þess að bíða fram yfir helgi með að redda netmálinu ógurlega.

Helginni lauk á endanum og ég gerði mér ferð í ráðhúsið í Würzburg. Eftir að hafa ráfað um húsið í dágóða stund í leit að réttum stað til þess að biðja um þetta “Meldebescheinigung” beið ég í eina og hálfa klukkustund eftir afgreiðslu.

  • Til þess eins að láta segja mér að ég það væri sér ráðhús í Höchberg og ég gæti ekki skráð mig inn í borgina þarna !!!!! Ég bý víst í “Hafnafirði” og “Hafnafjörður” er með sitt eigið ráðhús. Frábært !!

Þegar þarna var komið við sögu var klukkan orðin of margt til þess að ég ætti séns á að ná ráðhúsinu í Höchberg áður en það lokaði. (Ráðhús, bankar og aðrir formlegir staðir loka yfirleitt um 3 hérna í Þýskalandi). Ég ákvað því að ég myndi fara í ráðhúsið beint eftir skóla daginn eftir.

Dagurinn eftir rann upp og ég fór beinustu leið til baka í Höchberg eftir skóla.

  • Til þess eins að komast að því að ráðhúsið í Höchberg lokar kl 12 !!!!!

Heppnin er alveg að fara með mig. Mér til mikillar ánægju komst ég þó að því að einu sinni í viku er opið seinni part dags og það var daginn eftir. Í þetta sinn þurfti ég bara að bíða í einn sólarhring….

Enn einn daginn eftir fór ég svo loksins í ráðhúsið í Höchberg, fékk pappírana sem mig vantaði og hljóp beinustu leið í símabúðina. – Loksins –

Þar gerði ég samning til tveggja ára eftir að starfsmaður búðarinnar sannfærði mig um að pungurinn myndi virka í íbúðinni minni. Ég hafði áhyggjur vegna þess að símasambandið er ekki gott þar.

Nú var komið að því! Ég var LOKSINS á leiðinni heim með netpunginn minn. …………………HANN VIRKAÐI EKKI !!

Daginn eftir fór ég í símabúðina aftur og bað þau um að prufa punginn þar, vegna þess að hann hafði ekki virkað heima. Fjandans pungurinn virkaði! Ég sagði að þetta væri mjög svekkjandi þar sem að ég hafi nær eingöngu ætlað mér að nota netið heima hjá mér. Þau skildu áhyggjur mínar og sögðu mér að prófa punginn einu sinni enn heima hjá mér en koma aftur ef hann virkaði ekki. Þetta átti sér stað síðasta föstudag, daginn áður en ég fór til Heidelberg að hitta Berglindi og Einar 🙂

Helv…. pungurinn virkaði að sjálfsögðu ekki heima og ég þurfti að bíða fram yfir helgi (enn einu sinni) með að fara aftur í símabúðina. Þessi helgi var þó fljótari að líða vegna þess að henni eyddi ég með Berglindi og Einar í Heidelberg! 🙂

Síðasta mánudag fór ég svo í fjórðu heimsókn mína í símabúðina og tilkynnti þeim að pungurinn virkaði ekki! Ég fékk að segja upp samningnum en þarf samt sem áður að borga 1 mánuð.

Eftir nokkurra daga umhugsun og tilraunir með netpunginn (hahaha) ákvað ég að láta reyna á pung frá Vodafone. Ég er með símakort hjá þeim og hef yfirleitt komist á netið í símanum mínum í íbúðinni. Pungurinn hlyti bara að virka!

Í dag fór ég þess vegna í fimmtu heimsókn mína í símabúð og keypti pung hjá Vodafone. í þetta sinn fékk ég að gera 30 daga reynslusamning. ………………………………………………PUNGURINN VIRKAR EKKI !!!

Og nú sit ég uppi með 2 NETPUNGA sem ég get ekki notað heima hjá mér, ráðalaus með framhaldið !!

Kveðja

-Kristrún net- og ráðalausa

p.s. Ég ákvað að spara skemmtilegu hlutina í næsta blogg, eins og Heidelberg ferðina!

p.s.s. ÞIÐ vilduð heyra þetta.

Mánuður

Í dag er MÁNUÐUR síðan ég flutti til Würzburgar 🙂 Hver setti tímann á „fast forward“?! Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða!

Ég hef ekki mikinn tíma til þess að blogga núna vegna þess að ég þarf að halda áfram að hlaupa í hús til þess eins að vera send í næsta hús! Útskýrist síðar 😉 Fannst ég bara tilneydd til þess að blogga í tilefni dagsins!

Knús 🙂

-Kristrún

 

 

Þvottadagur

Hér koma örfréttir af kaffihúsi:

Íbúðin hefur tekið vel á móti mér, heimatilfinning eykst  á hverjum degi 🙂 En mun þó aukast til muna þegar ég fæ loksins netið í íbúðina!

Strætóferðir til og frá miðbænum um helgina hafa þó verið af verri endanum! Á virkum dögum ganga strætóarnir þokkalega ört en um helgar ekki nema á 1-2 klst fresti! Þó er um að ræða val um 3 vagna þannig að það sleppur. Um helgina voru hins vegar vegavinnuframkvæmdir við stoppistöðina mína og sökum þess var sú gata ekki notuð. Ég þurfti því að ganga langa vegalengd að næstu nothæfu stoppistöð og voru þessar gönguferðir, klifjuð pokum og töskum ekki mjög vinsælar 😉 Til þess að gera langa sögu stutta þá voru þær margar ruglingslegar strætóferðirnar um helgina !

Svo gerðist það víst um helgina að klukkan breyttist yfir á vetrartíma !! Sá dagur var mjög skrautlegur þar sem að ég hafði ekki hugmynd um að tíminn hefði breyst. Ég beið eftir strætó-um út um allan bæ klukkutíma of fljótt (án þess að vita af því auðvitað) og fannst búðirnar opna á heldur skrítnum tímum. Þegar heim var komið eftir góðan en undarlegan dag, eldaði ég mér kvöldmat og settist fyrir framan sjónvarpið (haldandi það að klukkan væri 20) og komst þá að því að það voru fréttir á öllum stöðvum (sem eru vanalega kl 19). Nú varð ég alveg rugluð, kíkti á textavarpið og þar stóð að klukkan væri 19:05 ! Til gamans má geta þá missti ég símann minn í götuna fyrr um daginn og hugsaði því á þessari stundu: „klukkan hlýtur að hafa ruglast þegar batteríið datt úr símanum“. Þegar ég fór svo að hugsa aðeins lengra til baka þá fór þetta allt að vera skírara, hvers vegna enginn strætó lét sjá sig á réttum tíma og hvers vegna búðirnar hafi opnað klukkutíma of seint. Grunur minn var svo staðfestur þegar ég fékk kærkomið sms frá föður mínum þar sem stóð: „Þú veist að klukkan hjá þér er 8 en ekki 9 af því það er kominn vetrartími hjá þér.“ – Takk pabbi! 😀

Fyrir utan þennan misskilning þá var helgin mjög góð! 🙂 Í gær var kaþólskur frídagur í Þýskalandi þannig að það var 3 daga helgi. Í skólunum er reyndar frí alla vikuna vegna haustfrís! En í tilefni frídagsins var markaður í miðbænum og allt iðandi af lífi! Þetta var eins og annasamur sumardagur í New York. Veðrið var æði, miðbærinn stútfullur af fólki, tívolítækjum, sölubásum, og skemmtiatriðum! Yndislegt 🙂 Á laugardaginn kíkti ég svo aðeins út á lífið með stelpu sem var með mér í herbergi á hostelinu. Það var góð tilbreyting!

En ja hérna – þetta voru langar örfréttir! Þvottafjallið ógurlega er farið að öskra á mig upp úr töskunni – það er víst kominn tími á að koma sér í þvottahúsið.

Knús á ykkur í bili 🙂

-Kristrún